144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vitna í örlítinn texta og ég vona að forseti virði það við mig að ég hleyp yfir nokkur orð þannig að þetta er ekki alveg bein tilvitnun. Þann 20. júlí árið 2013 var skrifað svohljóðandi bréf:

„Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til verkefnisstjórnar verndar og orkunýtingar landsvæða að forgangsraða vinnu sinni þannig að hún framkvæmi, eins fljótt og auðið er, faglegt mat á eftirfarandi þáttum.“

Þar eru taldir til þessir virkjunarkostir. Síðan er sagt:

„Álitaefnið vegna þessara kosta er fyrst og fremst áhrif Þjórsárvirkjana á laxastofna og svo áhrif hinna kostanna á víðerni og nálægð við Vatnajökulsþjóðgarð.“

Það var ekki vonda vinstri stjórnin sem skrifaði þetta. Þetta voru fulltrúar núverandi ríkisstjórnar sem báðu verkefnisstjórnina um einmitt þetta verkefni, en núna kalla þeir það að hún sé að fara út fyrir sitt verksvið. Hún er beinlínis beðin um að meta þessi áhrif.

Það að halda því síðan fram að betra sé að faglegt mat fari fram inni í atvinnuveganefnd finnst mér falla um sjálft sig í eftirfarandi greinargerð meiri hlutans með breytingartillögunni, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að fallið verði frá tillögu um að Hagavatnsvirkjun færist í nýtingarflokk enda eiga önnur sjónarmið við um hana en aðrar virkjanir í tillögunni og hefur meiri hlutinn auk þess komist að samkomulagi við umhverfis- og auðlindaráðherra um tillögu í þessa veru.“

(Forseti hringir.)Þetta er rökstuðningurinn á hinu faglega mati meiri hluta atvinnuveganefndar.