144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur gagnrýnt það mjög að menn skuli alltaf vera að vísa til gjörða fyrri ríkisstjórnar til rökstuðnings þess sem verið er að gera núna. Þá finnst mér dálítið mikilvægt að draga fram að 13. júní 2013, ef ég man það rétt, í júní 2013 skrifaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem núna er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bréfið til verkefnisstjórnarinnar og bað hana beinlínis um að fara yfir áhrif Þjórsárvirkjana á laxastofna og svo áhrif hinna kostanna á víðerni og nálægð við Vatnajökulsþjóðgarð. Það var ekki vonda vinstri stjórnin sem heimtaði að menn færu í öfgafulla gagnaöflun heldur var það stefna ríkisstjórnarinnar að svona skyldi farið með málið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það skjóti þá ekki skökku við að menn fari núna gegn eigin ákvörðunum.