144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við sjáum svolítið oft einkenni þess að fólk talar seint saman hér á bæ. Nú þykir mér í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að þingnefnd sé ósammála ráðherra en mér finnst það ekki til bóta þegar gjörvöll ríkisstjórnin fer í eins konar meðvirkniskast, og allur meiri hlutinn ef út í það er farið, vegna þess að hér á landi erum við vön því að líta þannig á að það sé ríkisstjórn og meiri hluti þingsins gegn minni hluta þingsins, sem hefur enga ráðherra samkvæmt skilgreiningu.

Þetta er allt hið ankannalegasta mál með hliðsjón af því hvernig menn gera þetta. Að mínu mati er alveg eðlilegt, alla vega undir þeirri stjórnskipan sem við almenningur a.m.k. höfum lengst af talið okkur búa við, að þingið hafi sjálfstæðar skoðanir. En það verður þá að vera á öðrum forsendum en þeim stjórnarháttum sem eru notaðir hér, vegna þess að tilfellið er einfaldlega að það er ekki þannig.