144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á athyglisverðan punkt í ræðu sinni varðandi það hvað alþingismenn geta gert og ekki gert gagnvart lögum eða stjórnarskrá. Það hefur auðvitað verið dálítið undir í þessari umræðu.

Það er í fyrsta lagi alveg ljóst að Alþingi getur ekki sett lög sem fara í bága við stjórnarskrána. Ef það er svo heillum horfið að gera slíkt þá eru þau lög ónýt því þá er það stjórnarskráin sem ræður fyrir dómi. Alþingi getur breytt öllum þeim lögum sem það hefur sett svo fremi sem sú breyting sem slík brjóti ekki gegn stjórnarskránni. En Alþingi ber einmitt mjög ríka skyldu til að aðhafast ekkert það sem fer í bága við lög sem það hefur sjálft sett eða eitthvert fyrra þing nema breyta þeim lögum.

Nú er alveg ljóst að lögum verður ekki breytt með þingsályktun. Hér erum við að tala um þingsályktun. Og þeim mun fráleitara er að niðurstaða í þingsályktun upphefji lög eða geti rutt þeim til hliðar. Það er óhugsandi. (Forseti hringir.) Menn geta stundum deilt um hvort ein lög upphefji eða ýti öðrum til hliðar en eitt er klárt og það er að niðurstaða Alþingis í formi þingsályktunar getur ekki og má ekki fara í bága við gildandi lög.