144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er dæmi um það þegar orðanotkunin býður í raun og veru miklu meira upp á umræðu um hvernig hlutirnir eru meintir. Auðvitað getur maður brotið lög. Ég get farið út í bæ, ég get brotið lög en ég get ekki gert það án þess að það séu réttarfarslegar afleiðingar af því, þ.e. ef löggæslan er næg. Ég vil meina að það sé eins með Alþingi. Alþingi getur brotið stjórnarskrá en ekki án þess, væntanlega, að einhverjar réttarfarslegar og stjórnskipulegar afleiðingar verði af því. Eitt af því sem ég óttast er að ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt og er ekki í samræmi við lög þá eru þær ákvarðanir sem við höfum tekið hér ekki lögmætar og ef ferlið yrði kært, sem ég geri fastlega ráð fyrir að yrði gert, þá kæmi upp mjög óþægileg réttarstaða fyrir alla, líka þá sem eru hlynntir Hvammsvirkjun, fyrir alla. Það væri mjög óþægileg staða.

Ég deili þessum áhyggjum hv. þingmanns og er sammála því að þingsályktun getur aldrei orðið rétthærri lögum. Lög geta kveðið á um að það eigi að vera þingsályktun en þegar þannig er þá er eins gott að þingsályktun sé í samræmi við lög vegna þess að annars vaknar spurningin um hvort það þurfi lög en ekki þingsályktun.