144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni prýðisræðu. Hv. þingmaður ræddi hér um formið og það sáttaferli sem rammaáætlun er, hún er sá rammi sem við sættumst á, að fara í gegnum þetta faglega ferli og mat á þeim kostum sem liggja undir hverju sinni. Ég ætla að taka það fram áður en ég ber fram spurningu mína að ég er sannarlega sammála hv. þingmanni um að formið er okkur mikilvægt í öllu slíku ferli. Reglur skipta máli. En þær mega ekki vera svo fast settar að þær verði yfirsterkari markmiðunum sem við ætlum.

Nú er þetta lengra ferli en svo að niðurstaða liggi fyrir þegar verkefnisstjórn hefur skilað áliti til ráðherra. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ferlið í heild sinni að niðurstöðu sé nægilega skýrt.