144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bara bent á það að stundum er mál að linni og ég skil vel þörf hv. þingmanns að gera allt það sem hann lýsti hérna áðan, en ég held að nokkrum okkar og kannski þjóðinni fari að finnast allverulega vel í lagt varðandi það.

Ég hef fylgst með umræðunni í allan dag og í rauninni hafa bara tvær ræður komist á dagskrá, tvær efnislegar ræður, það er bara þannig, efnisleg umræða frá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur og hv. þingmanni, ekki fleiri. Síðan er verið að ræða fundarstjórn forseta sem er alveg ofsalega dapurt. En það sem kom mér á óvart er að það eru tvö minnihlutaálit. Ég hélt að stjórnarandstaðan væri algerlega sameinuð um hvað hún vildi, en eftir að hafa lesið álitið sé ég að töluvert mikill munur er þar á og meiri en ég hélt (Forseti hringir.) miðað við þær umræður sem hafa verið í gangi. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann, af því að hann er á hvorugu álitinu, hvort minnihlutaálitið hv. þingmaður styður og hvoru mun hann fylgja hér í atkvæðagreiðslu?