144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Áfram höldum við hér í kvöld og ég velti fyrir mér hvers vegna. Nú höldum við vitaskuld áfram að tala um fundarstjórn enda mikið þar að ræða. Það ætti að sjást af þeim breytingartillögum og umræðum sem átt hafa sér stað að það er gjörsamlega gagnslaust að hafa þetta mál á dagskrá. Við erum búin að fara margsinnis yfir þetta. Það væri nær lagi að halda áfram því samtali sem byrjaði í dag um það hvernig við getum horft fram á veginn og sömuleiðis kannski að viðra það hvernig við getum aftur nálgast sátt um ferlið sjálft. Það er ferlið sjálft sem við deilum um hér og það er í raun sjálfsagt að ef við erum ósammála um það ferli eða ef það er óskýrt á einhvern hátt þá reynum við að ráðast að rót vandans frekar en að reyna að kýla hlutina hér í gegn með valdi.