144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fram hafa komið ítrekaðar beiðnir og tillögur stjórnarandstöðunnar um að málið verði tekið af dagskrá. Því miður virðist forseti hvorki vilja nálgast þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar né formenn stjórnarandstöðuflokkanna til að leiða þá saman með hæstv. ráðherrum og forseta sem hér fara með öll völd og hafa ákveðið að fleiri mál verði ekki á dagskrá þingsins. Eins og ég hef áður sagt þá er það algjörlega í höndum forseta að hafa þetta mál á dagskrá þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að hér er verið að fara gegn lögum í landinu. Það virðist ekki skipta máli, en það er kannski eins og margt annað hjá þessari ríkisstjórn, þær tillögur eru bara virkar og í gildi sem hæstv. ráðherrum hentar hverju sinni. Því er kannski eins farið með þessa tillögu og þá sem hæstv. utanríkisráðherra taldi ekki vera í gildi.