144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru ákaflega skringilegir tímar og rétt að minna á að þessi ríkisstjórn, þó að hún hafi meintan meiri hluta, hefur engar heimildir til að rjúfa samkomulagið sem var gert með rammaáætlun um hverju skyldi þyrma og hvað vernda. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra noti slíkan varnarskjöld fyrir algjörlega mislukkaða tilraun til þess að vanvirða í raun verkefnisstjórn rammaáætlunar og taka hana úr gildi, að hann beiti fyrir sig verkalýð landsins eins og hlífðarskildi sem gjarnan er beitt í stríðsátökum. Þetta er náttúrlega með ólíkindum, forseti, og löngu tímabært að verða við kröfu minni hlutans um að þetta mál verði tekið af dagskrá. (Forseti hringir.) Það er bara þannig. Það er greinilegt að ríkisstjórnin er að skýla sér á bak við það að hún hefur engin mál.