144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra er úr öllum tengslum við allt sem getur kallast veruleiki. Hann kemur hingað inn og heldur því fram við okkur að rammaáætlun snúist um kjaramál, en svo hefur það verið tekið til baka af þeim sem eru viðsemjendur á vinnumarkaði. Eigum við þá ekki að taka okkur hlé hérna, fara yfir stöðuna og leyfa stjórnarflokkunum að fara yfir forsendur þessa máls aftur? Þegar helsta forsenda málsins er fallin, forsendubrestur hefur orðið í málinu og málflutningi forsætisráðherra, fullkominn forsendubrestur, er eðlilegt að menn staldri við. Ætla hv. stjórnarþingmenn í alvörunni að halda þessum leiðangri áfram í nafni þess sem forsætisráðherra hefur boðað, að þetta sé aldeilis stóra málið í lausn kjaradeilu á vinnumarkaði, þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt að það sé tómt rugl? (Forseti hringir.) Það hafi aldrei verið minnst á þetta þar. Ætla menn í alvörunni að halda (Forseti hringir.) leiðangrinum áfram á þeim forsendum, virðulegi forseti? Ég trúi því ekki.