144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Auðvitað væri stórkostlega áhugavert að fá hæstv. forsætisráðherra hér til umræðunnar og heyra hann útskýra og útlista rökin fyrir því að þessi tillaga sé samt á einhvern hátt innlegg í kjaraviðræður og lausn þeirra mála þó að upplýst sé af aðilum vinnumarkaðarins að hún hafi aldrei verið nefnd og komi þeim málum ekkert við. Þetta er einhver dulspeki sem mér finnst að hæstv. forsætisráðherra skuldi okkur skýringar á. Er hann kannski með eitthvert plan uppi í erminni um að á einhvern hátt gæti þetta undarlega mál samt leyst hnútinn í kjaradeilum? Auðvitað væri eins fróðlegt að fá hæstv. iðnaðarráðherra til umræðunnar til að ræða nýju kenninguna um rafmagnsleysið, að landið sé að verða rafmagnslaust. Nú eru þau með það hér, hver snillingurinn á fætur öðrum að við séum alveg að verða rafmagnslaus. (Gripið fram í: Það sýndi sig nú á …) Voðalegt ástand. Já, en það var af öðrum ástæðum, spennuflökt. Mér finnst að minnsta kosti að einhver af hæstv. ráðherrum ætti að vera hér við umræðuna og reyna að svara eitthvað fyrir málin. Við vitum að hæstv. umhverfisráðherra hefur víst ekki hægar aðstæður til að vera það, gott og vel, en er þá ekki ríkisstjórnin (Forseti hringir.) í þannig ástandi að einhver annar gæti verið hér til að svara fyrir hana?