144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Enn og aftur koma þingmenn hér upp og fara yfir það að hér sé verið að brjóta lög. Þá vil ég fara yfir það að í 3. gr. þessara laga segir, eins og kemur fram í umsögn umhverfisráðuneytisins, að nýtingaráætlun taki eingöngu til virkjunarkosta sem verkefnisstjórnin hefur fjallað um. Einnig er miðað við að Alþingi taki ekki afstöðu til annarra virkjunarkosta en þeirra sem verkefnisstjórnin hefur fjallað um. Í því felst á engan hátt að Alþingi sé bundið af tillögum verkefnisstjórnar eða ráðherra um flokkun virkjunarkosta heldur eingöngu lögum nr. 48/2011, þar á meðal að fyrir liggi faglegt mat á virkjunarkostum á landsvæðum.

Hjá verkefnisstjórninni er sagt:

„Eins og lýst er hér að framan varð ljóst á haustmánuðum 2013 að verkefnisstjórn myndi eingöngu ná að fjalla faglega um virkjunarkostina þrjá í Þjórsá.“

Faglegt mat verkefnisstjórnarinnar á þessum þremur kostum kemur fram í greinargerð verkefnisstjórnarinnar — hv. þm. Róbert Marshall hristir hér hausinn yfir því, sannleikanum verður hver sárreiðastur, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) en þetta stendur hér. Þetta er nákvæmlega með sama hætti og gert var hér á síðasta kjörtímabili, (RM: Nei.) nákvæmlega sama hætti, (KaJúl: Nei.) nema þá var það ráðherrann sem framkvæmdi breytingarnar, (Gripið fram í.)nú er það Alþingi sem framkvæmir (Gripið fram í.) með nákvæmlega sama hætti. Það sendir málið í umsögn og tekur síðan sína ákvörðun um þessar breytingar. (Gripið fram í.)

(Forseti (SilG): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma og vera ekki með tveggja manna tal í þingsal.)