144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór aðeins inn á það að kannski þyrfti að endurskoða þingsköp og einhvern veginn finna út úr því hvernig — nei, ekki þingsköp, fyrirgefið, hann nefndi þau ekki á nafn en talaði um að það þyrfti að athuga hvernig væri með það að menn gætu talað alveg endalaust hérna.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að minni hlutinn mundi koma sjónarmiðum sínum á framfæri ef ekki væri það mikið valfrelsi hér á bæ, á hinu háa Alþingi, að þingmenn minni hlutans gætu kvartað eins oft og þeir þyrftu til þess að fá áheyrn. Ég veit að hv. þingmaður var hér á síðasta kjörtímabili og veit vel hvernig þetta virkar allt saman, þess vegna hef ég mikinn áhuga á því að vita hvernig hann sér fyrir sér að hægt sé að halda þingstörfum og breyta þingsköpum án þess að hér ríki gerræði meiri hlutans.