144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur treyst því að ég veit margt skemmtilegra og gagnlegra að gera við líf mitt en að hanga hér fram eftir kvöldi við að reyna að hafa vit fyrir virðulegum forseta um dagskrá þingsins, langt fram eftir kvöldi og jafnvel nóttu, þannig að auðvitað er enginn hérna að tala að gamni sínu. Við tölum vegna þess að við höfum yfir svo miklu að kvarta og höfum engar leiðir aðrar til þess að koma kvörtunum okkar í farveg en að hljóta áheyrn virðulegs forseta. Þegar hann hunsar og meiri hlutinn hunsar höfum við nákvæmlega ekkert annað.

Mér finnst mjög gott að heyra hv. þingmann tala um þessa tilteknu leið, hún er stundum kölluð danska leiðin, sem er að minni hlutinn geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að áhrifin mundu verða nákvæmlega þau sem hv. þingmaður nefnir, að samtalið um það hvernig eigi að haga störfunum ætti sér stað miklu, miklu fyrr og væri miklu, miklu siðmenntaðra í kjölfarið, væntir maður. Þá er í sjálfu sér að litlu öðru að spyrja í því samhengi en hvort hv. þingmaður mundi styðja slíka tillögu ef hún kæmi fram á þinginu.