144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:57]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni ræðu hans. Það sem mig langar að spyrja hann að í kjölfarið er hvort hann sé þeirrar skoðunar að faglegu mati vegna Urriðafoss, Holtavirkjunar og Skrokköldu sé lokið. Mér finnst mikilvægt að hv. þingmaður svari því og það er líka mikilvægt að menn hafi í huga þegar hann svarar því að hér talar formaður umhverfisnefndar. Þetta er það sem mig langar að spyrja að, vegna þess að mér finnst mikilvægt að fá að vita hvort hann sé tilbúinn til að fara fram hjá verkefnisstjórn sem treystir sér aðeins til þess að leggja til að Hvammsvirkjun verði flutt í nýtingarflokk.

Virðulegur forseti. Ég vil líka spyrja hvort ekki sé gert ráð fyrir því að menn fái tvær mínútur til að veita andsvör þegar aðeins þrír þingmenn eru í andsvörum. Er aðeins ein mínúta á hvern þingmann, er hægt að fá viðbrögð við því?

(Forseti (SilG): Venjan er sú að þegar þingmaður fellur í miðjum andsvörum frá orðinu helst einnar mínútu ræðutími á alla, eins og venjan er þegar fjórir þingmenn eru í andsvörum.)