144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel það mjög mikilvægt að við förum yfir öll álit. Ég geri ekki greinarmun á áliti ASÍ núna og þá. Mér hefur fundist í umræðunni, og það er kannski ástæðan fyrir því að ég reifaði gamla álitið, að menn hafi verið að benda á að sú ákvörðun sem tekin var á síðasta kjörtímabili, þ.e. um að færa úr nýtingu í bið, hafi einhvern veginn runnið hér í gegn. Mér finnst reyndar ASÍ vera á mjög svipuðum nótum. Þeir tala um þá sátt sem þeir telja að eigi að ríkja um rammaáætlun, en ég rakti það svo sem líka áðan að það er skoðun þeirra sem stóðu að gerð áætlunarinnar að það sé bara alls ekki raunin, að það eigi ekki að ríkja sátt. Við eigum að sjálfsögðu að kíkja á allar tillögur en eftir að hafa farið yfir þetta gamla álit finnst mér enn þá að þau rök sem vísað er til séu „valid“ í dag og nauðsynlegt að halda hér á lofti í umræðunni að minnsta kosti.