144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður verður að vera í núinu og ræða um þær umsagnir sem hafa borist núna. Það hefur komið fram að ASÍ styður að rammaáætlun verði áfram með faglegum ferli og að ekki sé stigið út fyrir þann ramma, það er á hreinu.

Hv. þingmaður kom inn á að hann styddi sinn ráðherra og væri fylgjandi þeim virkjunarkostum sem hann legði til og að Hagavatn færi þarna út. En styður hv. þingmaður þá ekki Sigurð Inga Jóhannsson sem lagði eingöngu til Hvammsvirkjun? Styður hann frekar formann atvinnuveganefndar í þeim efnum?

Það er dálítið skrýtið að það er aldrei hægt að láta stjórnarmeirihlutann skilja að verkefnisstjórn á að fjalla um kosti og skila rökstuddum tillögum til ráðherra. Það er ekkert flóknara en það. Hefur hv. þingmaður ekki þann skilning á því (Forseti hringir.) eftir að hafa kynnt sér þetta vel, eins og ég efast ekkert um að hann hafi gert?