144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að spyrja skýrra spurninga. Í fyrsta lagi langar mig að vita hjá hv. þingmanni: Voru þessar breytingartillögur ræddar og samþykktar í þingflokki Framsóknarflokksins áður en þær voru lagðar fram og samþykktar út úr atvinnuveganefnd?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort fram hafi farið umræða millum og innan stjórnarflokkanna um þá staðreynd sem haldið er fram hér í salnum af hálfu hæstv. forsætisráðherra, að þetta sé lykillinn að lausn deilna á vinnumarkaði?

Það kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins að rammaáætlun hafi aldrei verið nefnd í yfirstandandi kjaraviðræðum. Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur að breytingar á rammaáætlun tengist ekki viðræðunum eða vera sérstakt innlegg í þær.

Ég sagði áðan að það hefur oft verið kallað forsendubrestur í hinum ýmsu málum. Ég vil því spyrja hvort hv. þingmaður (Forseti hringir.) telji ekki að hér sé orðinn ákveðinn forsendubrestur fyrir því að menn keyri svona fast á þetta mál í þinginu?