144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í andsvari við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að hann teldi að hann hefði í ræðu sinni reynt að draga fram að það sem fráfarandi ríkisstjórn hefði gert varðandi rammaáætlun væri rangt eða ekki rétt gert og þar með væri aðferðafræðin hér og nú það líka. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti stutt þetta mál, byggt á þeim forsendum. Hann byggði þetta á umfjöllun sinni um umsagnir frá ASÍ, gamlar og þá nýjustu, þar sem þessu er haldið fram, þ.e. ósk ASÍ er sú að menn standi við ferlið og haggi því ekki og láti verkefnisstjórnina um þetta mat.

Virðulegi forseti. Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að menn beygi hér ansi hressilega af leið miðað við það erindisbréf sem ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórn, Sigurður Ingi Jóhannsson, sendi til verkefnisstjórnarinnar um akkúrat þessar virkjanir, í viðauka (Forseti hringir.) við erindisbréf í júní 2013?