144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér fannst síðustu orð hv. þingmanns sem talaði á undan endurspegla þá stöðu sem við erum í þar sem hann ræddi um mikilvægi þess að reyna að ná sátt um flókin mál á borð við það sem hér hefur verið til umræðu. Ástæða þess að hér er engin sátt er sú, þó að hv. þingmaður hafi viðrað aðrar skoðanir, að stór hluti þingmanna er þeirrar sannfæringar að sú tillaga sem við ræðum nú stríði gegn þeim anda sem finna má í lögum um rammaáætlun, að hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirra faglegu sjónarmiða sem við eigum að bíða eftir frá verkefnisstjórn rammaáætlunar, að hér sé verið að ganga á þau faglegu vinnubrögð sem við höfum samþykkt sem þing að við ætlum að iðka, samþykktum hér tillögu 63:0 um að við ætluðum að breyta stjórnmálamenningunni. Hluti af því samkvæmt skýrslunni sem sú tillaga var byggð á var meðal annars að hlusta meira á fagmenn.

Ég hef í sjálfu sér ekki heyrt nein rök fyrir því af hverju gengið sé fram hjá fagaðilum í þessu máli nema það þurfi að drífa sig að snúa einhverjum hjólum atvinnulífsins í gang (Forseti hringir.) og það sé einhvern veginn nægur rökstuðningur fyrir því að ganga fram hjá faglegum ferlum. Þetta er ekki Alþingi sæmandi.