144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er áhugaverð staða að teiknast upp í þessum umræðum, sérstaklega kannski eftir ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns umhverfisnefndar, sem segist styðja sinn umhverfisráðherra eins og hann orðaði það hér í ræðu sinni. Hvað er það nákvæmlega sem umhverfisráðherrann hefur sagt? Hún hefur sagt að hún vildi helst að verkefnisstjórn fengi frið til þess að klára sín mál. Hún hefur sagt að hún líti á verkefnisstjórnina sem eins konar skilvindu, ef ég man rétt, sem ætti að hafa úr mörgum kostum að moða og er það í samræmi við það sem forveri hennar, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði til sem ætti auðvitað að vera viðstaddur þessa umræðu í kvöld í stað umhverfisráðherra sem á ekki heimangengt. Hann treysti sér eingöngu til að leggja til eina virkjun á færslu úr bið í nýtingu. Þannig að pólitísk staða þeirra (Forseti hringir.) breytingartillagna sem hér eru til umfjöllunar er mjög óljós.