144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að benda á þessa staðreyndavillu og er þetta enn ein staðreyndavillan í þessari umræðu. Hann var einn af þeim sem tóku þátt í því að flytja þessa tillögu sem hélt að Hagavatn hefði verið í nýtingarflokki og flutt í bið. Það var nú annar þingmaður sem stóð og stendur að þessari tillögugerð sem sagði okkur það að hann hefði aldrei kynnt sér álit umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem hann segir að ferlið sé ekki í samræmi við lög. Sama segir Skipulagsstofnun og fleiri aðilar. Það virðist enginn hafa tekið neitt mark á þessu. Vanþekkingin á málinu birtist hér í hverri ræðunni á fætur annarri hjá þeim sem hér tala af hálfu stjórnarliða og meira að segja þeim sem leggja þessa tillögu til, nema menn séu vísvitandi að fara með rangt mál.

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur óska eftir því að málið verði tekið af dagskrá á meðan við bíðum eftir forsætisráðherra og hann gefi okkur yfirlýsingu vegna yfirlýsinga sem fram komu hjá aðilum vinnumarkaðarins fyrr í kvöld.