144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það verður ekki nógu oft sagt í þessum ræðustól að við erum að ræða dagskrá þingsins undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að málið sem er á dagskrá er óásættanlegt. Það gengur engan veginn upp. Það er ótækt. Þess vegna er þetta rætt hér aftur og aftur vegna þess að minni hlutinn hefur engin önnur tæki eða tól eða bjargir til þess að benda á þetta. Staðreyndin er sú að ein virkjun, Hvammsvirkjun, hefur farið í gegnum faglega úttekt verkefnisstjórnar með löngu og umfangsmiklu umsagnarferli. Hún hefur fengið umfjöllun í ríkisstjórn, í stjórnarflokkunum, í fyrri umræðu í þinginu, farið inn í nefnd, og svo eru fjórir eða reyndar núna þrír virkjunarkostir sem hafa ekki farið í gegnum þetta ferli settir inn til viðbótar án faglegrar niðurstöðu, án umsagnarferlisins sem rammaáætlun gerir ráð fyrir. Þess vegna er þetta ótækt.