144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að þreytast á því að koma hér upp og gera athugasemdir við það þegar hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir halda því fram að farið sé á svig við lög. (KaJúl: Það er rétt.) — Það er rétt, kallar varaformaður Samfylkingarinnar hér inn í. Þá hvet ég þau til þess, þessa hv. þingmenn, að leggja fram lögfræðilegt álit sem styður þessar alvarlegu ásakanir þeirra.

Þau hafa gjarnan notast við lögfræðilegt álit eða minnisblað frá umhverfisráðuneytinu. Umhverfisráðuneytið segir akkúrat ekkert um þetta. Reyndar styður það mjög ítarlega í áliti sínu að í sambandi við virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár sé farið fyllilega að lögum. Þegar fólk ber fram svona alvarlegar ásakanir, virðulegi forseti, þá er eins gott að lagt sé fram eitthvert lögfræðilegt álit því til stuðnings. (Gripið fram í.) — Það er alrangt. Í minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins (Forseti hringir.) kemur hið gagnstæða fram, algjörlega skýrt og klárt. Ég hvet fólk til þess að hafa þetta á aðeins málefnalegri nótum en hingað til hefur verið.