144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. formaður atvinnuveganefndar ætti að vita jafn vel og ég að neðri hluti Þjórsár er ekki fullrannsakaður. Það kom fram hjá formanni faghóps og verkefnisstjórn að svo væri ekki. Ég hefði haldið að ekki þyrfti að deila um það. Lögfræðiálit liggur fyrir í minnisblaði sem hefur komið fram um þetta mál frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, svo hv. formaður atvinnuveganefndar ætti ekki að eyða orku sinni í að vera að skattyrðast um þetta endalaust.

Ég kem fram með þá ósk að fá hæstv. forsætisráðherra hingað. Ég held að það sé alveg tímabært að fá ráðherra hingað til að fara yfir stöðuna. Það liggur fyrir að ekki stendur steinn yfir steini varðandi þau ummæli hæstv. forsætisráðherra að þetta væri innlegg í kjaraviðræður. Ég tek undir orð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur að óska eftir að hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra komi hingað nú þegar.