144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta var nú áhugavert hér í restina. Ég held að síðasti ræðumaður ætti að kynna sér þingsköpin, hvað þau standa fyrir og hvernig manni ber að fara eftir þeim, því að ef það sem hér var rakið á ekki heima undir þessum lið, ja, ég bið þingmanninn aftur að lesa þingsköpin og ræða kannski við starfsmenn Alþingis sem hún telur að geti kynnt sér þau betur.

Virðulegi forseti. Það er í rauninni að verða óbærilegt að standa hér og hlusta á mismunandi lesskilning fólks og að halda því fram að að það geti ekki kynnt sér málin þrátt fyrir að fólk hafi ekki tök á því að mæta á fundi. Ég held að margir hafi setið hér í þingsal frá upphafi þessa máls og lesið sér mjög til gagns án þess að hafa setið fundi atvinnuveganefndar. Ég hef ekki gert það, ég tel mig alveg hafa getað lesið mér til töluvert um málið og meira, að ég tel, en margur annar sem situr í meiri hluta atvinnuveganefndar og aðrir þeir þingmenn, virðulegi forseti, sem munu væntanlega samþykkja þetta hér á endanum. (Forseti hringir.) Mér þætti gaman að vita hversu vel kunnugir þeir þingmenn eru þessu máli og hvort þeir hafi fengið miklar (Forseti hringir.) og greinargóðar upplýsingar hjá einungis formanni atvinnuveganefndar eða annað slíkt, því að það dugar ekki, virðulegi forseti.