144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mjög orkufrek stóriðjustarfsemi, t.d. álbræðsla, hefur þann ágalla í fyrsta lagi að borga alltaf lægsta raforkuverðið. Þeim mun orkufrekari sem einhver starfsemi er og þeim mun hærra hlutfall rekstrarkostnaðar sem orkunotkunin er, þeim mun harðar sækja menn eftir lágu verði. Það er skiljanlegt. Álbræðsla er í dag að verða eins og kjúklingaeldi, verksmiðjuframleiðsla með mjög litla framlegð á framleidda einingu og þess vegna þarf verksmiðjan að verða rosalega stór til að verða arðbær.

Í öðru lagi skilur slík uppbygging allt of lítið eftir í hagkerfinu, 35% af veltunni verða hér eftir á meðan okkar greinar, ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn og nýsköpunartæknigreinar, skilja eftir 80–90%, eru kannski bara að uppistöðu til vinnulaun. Í stóriðju af þessu tagi skapast mjög fá störf borið saman við fjárfestingu. Hún er í eigu útlendinga, arðurinn vill leita úr landi, það eru keypt inn dýr aðföng o.s.frv. Þetta er um það bil það fáránlegasta sem mér (Forseti hringir.) kemur til hugar að blanda inn í viðræður við lágtekjufólk, verkafólk um sín launamál. Það er svo yfirgengilegt að láta sér detta það í hug að það sé innlegg á það borð.