144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta var um Orkustofnun. Ég verð að segja að ég hef stundum átt bágt með ýmislegt sem frá henni hefur komið (Gripið fram í: Landsvirkjun.) eða Landsvirkjun, já, undanfarna daga. Vissulega hefur Landsvirkjun kostað þó nokkrar rannsóknir en af því að vísað er í umhverfismatið nefndi ég það í minni ræðu að það er að verða 15 ára gamalt. Ég veit alveg á hvaða stigi rannsóknir á til dæmis fiskstofnum Þjórsár voru þá. Þær voru varla til, skráningar mjög lélegar o.s.frv. Þar hefur orðið stórkostleg framför. Nú er reynt að passa upp á að allt sé vel skráð í veiðibækur, það eru árlega umtalsverðar vaktanir og rannsóknir, t.d. í Kálfá þar sem Landsvirkjun hefur núna kostað seiðateljara og gildrur og er heilmikið unnið akkúrat þessi missirin. Ég held að flestir fiskifræðingar sem til þekkja segi einmitt: Þetta er gott en er að vísu allt of seint fram komið. Leyfum þessu að ganga áfram í nokkur ár. Rannsökum þetta miklum mun betur. Það er það sem ég held líka að við þurfum að gera.

Ég vil svo líka svara því hvað annað við getum gert en þá eftir atvikum ekki í skugga af deilum eins og þessum heldur þegar rólegur tími væri til að setjast yfir ferlið og skoða það. Ég held að við eigum að sameinast um að búa (Forseti hringir.) vel að verkefnisstjórninni og faghópunum þannig að þeir geti unnið sitt starf með mjög vönduðum hætti. Það er til dæmis nokkuð sem við getum sameinast um.