144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú fer hv. þingmaður undan á flótta sem er svo sem ekkert óvanalegt í þessum málum. Hann kýs að svara ekki spurningu minni svo það er best að ég ítreki hana. Ég sagði aldrei að þeir hefðu verið færðir í nýtingarflokk en þeir eru í nýtingarflokki og þeir voru ekki færðir í biðflokk. Þar með studdi síðasta ríkisstjórn að farið yrði að undirbúa og rannsaka vegna virkjunarframkvæmda á þessum stöðum. Ég spurði einfaldrar spurningar: Telur hv. þingmaður að þeir virkjunarkostir sem ég taldi upp, Sandfell og Sveifluháls í Krýsuvík og Eldvörp á Svartsengissvæði, eigi erindi í nýtingarflokk? Formaður Landverndar sagði í fjölmiðlaviðtali að hann styddi virkjanir sem væru komnar í nýtingarflokk þannig að ég geri ráð fyrir að Landvernd styðji þessa virkjunarkosti. Ég spyr: Telur hv. þingmaður þetta hagkvæmari og betri virkjunarkosti í náttúrulegu tilliti en virkjanir í neðri hluta Þjórsár?

Hv. þingmaður fullyrti að dæmi væru um að seiðaveitur í nútímanum hefðu mistekist hrapallega. Það er alls ekki samkvæmt þeim upplýsingum (Forseti hringir.) sem veiðimálastjóri gaf okkur í atvinnuveganefnd, miklu frekar eru þær að endurheimta laxasvæði í Kólumbíuánni þar sem þær voru settar niður löngu eftir að virkjanir voru þar byggðar á stríðsárunum og fyrir stríð og núna á seinni tímum, þar sem þær hafa verið notaðar með nútímatækni, hafa þær reynst hreint með ágætum.