144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Tvennt hefur komið í ljós á síðustu klukkutímunum sem rennir stoðum undir þær fullyrðingar minni hlutans í þinginu að það sé engin ástæða til að ræða þetta mál hér og nú, þvert á móti full ástæða til að fresta þessari umræðu og vísa málinu aftur til nefndar. Hið fyrra er sú augljósa ábending hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í ræðu hérna áðan eða svari við andsvari að faglegt mat vegna þeirra þriggja virkjunarkosta sem eru í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar er í gangi. Það er verið að vinna. Hin staðreyndin sem mér finnst ástæða til að draga hér fram er að í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar er meinleg villa sem hlýtur að teljast reiðarslag fyrir meiri hlutann. Maður veltir fyrir sér hvort ekki eigi að prenta upp nefndarálitið og leiðrétta þá villu sem þar er. Mér finnst það mjög mikilvægt og ekki síður finnst mér mikilvægt að vita hvort (Forseti hringir.) föruneyti hv. þm. Jóns Gunnarssonar í þessu máli öllu hafi byggt tillöguflutning sinn á þeim röngu staðreyndum í nefndarálitinu.