144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað vegna þess að mér ofbauð þegar hv. þingmaður og þingflokksformaður Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, tíndi upp nöfn einstakra þingmanna og spurði hvar þeir væru (SSv: Nú?) eins og það væri venja að þegar meiri hluti kallaði eftir kvöldfundi sætu hann allir stjórnarliðar. Ég er búin að sitja á þingi síðan 2007 og ég er ekki að segja að þetta sé til eftirbreytni, ég tek undir það með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, en þetta hefur alltaf verið svona. Það er ekki þar með sagt að það sé gott en ég man ekki til þess að þingflokksformenn hafi almennt farið í pontu, nefnt fólk með nafni og kallað eftir því að það kæmi til fundarins. [Kliður í þingsal.]

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ósmekklegt og mér finnst ómaklegt (Forseti hringir.) að það sé látið að því liggja að fólk vinni ekki vinnuna sína.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn að hafa taumhald á tilfinningum sínum.) (KaJúl: Það er ekki að vinna vinnuna sína.) (RR: … hér allan tímann í fyrravetur. …)

(Forseti (ÞorS): Forseti biður um hljóð í salnum.) (Gripið fram í.) (KaJúl: Heyrðu, eru þetta vinnubrögðin …?) (BirgJ: … sáttatónninn …)