144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sagði hér fyrr í kvöld að ef einhver af ráðherrum Framsóknarflokksins ætti að vera viðstaddur þessa umræðu væri ósköp eðlilegt að það væri sá ráðherra sem lagði fram tillöguna sem er til umfjöllunar. Ég held að það væri mjög gagnlegt miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið. Hann þekkir málið vel, fékk til sín tillögur verkefnisstjórnar, treysti sér ekki til að leggja til breytingar að öðru leyti en því sem verkefnisstjórnin lagði til, þ.e. að færa Hvammsvirkjun úr bið í nýtingu.

Aðeins um hið innra ósamræmi stjórnarmeirihlutans, það er dálítið merkilegt að fylgjast með því að menn skuli taka þátt í því að samþykkja kvöldfund sem þeir ætla síðan ekki að vera á sjálfir, kvarta ítrekað yfir því að það sé verið að tefja efnislega umræðu með ræðum um fundarstjórn forseta en kvarta (Forseti hringir.) á sama tíma um að í ræðum um fundarstjórn forseta sé efnisleg umræða.