144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í morgun voru greidd atkvæði um lengd þingfundar. Þá komu margir upp og létu okkur í stjórnarandstöðunni heyra að við værum ekkert of góð til að vinna inn í nóttina. Það var líka gert með hrópum úr sal. Og hvað er að því að hér í ræðustól sé kallað eftir þingmönnum sem studdu þessa tillögu? Mér finnst að hv. þingmenn og þingflokksformenn sem eiga það til að koma hingað upp og vanda um fyrir öðrum þingmönnum og segja þeim með hvaða hætti þeim beri að hegða sér í þingsal og hvernig þeim beri að tala til annarra þingmanna ættu að fara að eigin ráðum og ekki standa úti í sal og hrópa á aðra þingmenn eftir að ræðum þeirra er lokið eða standa í frammíköllum við aðra þingmenn tveim mínútum eftir að hafa vandað um fyrir öðrum þingmönnum. (Forseti hringir.)

Þeir sem tala svona verða líka að fara eftir því sem þeir predika en ekki nota ræðustólinn til að vanda um fyrir öðrum ef ekki er innstæða fyrir því.