144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert á móti því að við höldum aðeins áfram en þarf hins vegar eiginlega að fá að vita það upp á skipulag vegna þess að kl. 8.30 í fyrramálið er fundur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þar eru til umræðu höfundaréttarmál. Eins og virðulegur forseti veit sjálfsagt er ég í flokki sem heitir Píratar sem er komið af Pirate Party sem er sérstaklega kominn til vegna höfundaréttarmála þannig að þetta er svolítið mikilvægur fundur í mínu tilfelli. Ég get ekki sleppt honum og ég verð að mæta á hann að minnsta kosti eitthvað sofinn. Ég er í mjög litlum þingflokki þannig að ég þarf eiginlega að vita þetta. Ég er ekkert að krefjast þess að fundurinn verði styttur en það væri mjög gott að fá að vita um það bil hvað forseti hefur í hyggju þannig að það sé hægt að skipuleggja starfið betur.