144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vinsamlegast ekki taka þessu sem kvörtun. Mig langar að segja frá svolitlu sem mér finnst alveg þess virði að hugsa um þegar kemur að lýðræðinu. Þannig er að ég á marga góða vini og marga góða frændur, tvo frændur sérstaklega sem eru bræður. Einhvern tímann sátum við heima að drykk og okkur vantaði eitthvað úr búðinni svo við kusum einn okkar til að fara í búðina, þann yngsta, og kölluðum hann fasista þegar hann hafnaði þessari lýðræðislegu ákvörðun. Ég ítreka að ég er ekki að kvarta en mér finnst alveg þess virði að nefna þetta vegna þess að þeir sem greiddu atkvæði með því að halda þennan þingfund eru almennt ekki hér, ég sé bara einn í salnum, tvo með virðulegum forseta sem greiddu atkvæði með þessum þingfundi, þannig að það er greinilegt að þeir sem greiddu atkvæði með því að halda þennan þingfund hafa ekki mikinn áhuga á að taka þátt í honum. Auðvitað er þetta allt mjög skiljanlegt og við vitum nákvæmlega hvers vegna það er.

Mér þykir þess virði að hafa í huga þegar kemur að (Forseti hringir.) fundarstjórn forseta og störfum þingsins hvað það er sem við eigum við að etja hérna. Það eru ekki málefnalegar umræður vegna þess að það er ekkert færi á þeim þegar það er næstum því enginn í salnum sem vill tala um málið.