144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka svarið. Það var spakur maður sem eitt sinn sagði að það mætti ekki setja öll eggin í sömu körfuna. Og ég er og hef lengi verið þeirrar skoðunar, eftir að síðasta stóra álverið var sett af stað, kerin voru sett í gang, að við séum komin með alveg nóg af álbræðslu á Íslandi. Við þurfum ekki fleiri álver, það er hægt að nýta orkuna í annað og mér finnst líka smánarlegt hversu lítið þessi fyrirtæki borga fyrir orkuna. Sambærileg fyrirtæki, sömu fyrirtæki, borguðu þrisvar til fjórum sinnum meira fyrir orkuna í Þýskalandi. Þau fóru til Íslands af því að það var svo ódýrt að kaupa orku hér.

Ég held því að við ættum að staldra aðeins við, það er komin ný auðlind í landið sem eru erlendir ferðamanna. Við hlúum ekki nægilega vel að þeirri atvinnugrein. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki verið farsæl í því að tryggja að þeir sem njóta hagsældar af auknum ferðamannastraumi taki þátt í kostnaðinum, heldur átti að velta þeim kostnaði m.a. yfir á Íslendinga, almenning, sem er náttúrlega fráleit hugmynd. Ég vil því hvetja hv. þingmann að beita sér fyrir lausnum sem eru á þann veg að það sem fólk sækir í, íslensk náttúra, verði ekki eyðilagt vegna skammtímasýnar. Við þurfum að móta okkur miklu skýrari framtíðarsýn um hvernig við ætlum að hlúa að landinu þannig að það verði bæði kostur að búa hér sem Íslendingur og kostur að koma hingað til að njóta náttúrunnar með okkur.