144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eitt af því sem hefur slegið marga í þessari umræðu um rammaáætlun eru þær staðhæfingar hæstv. forsætisráðherra og fleiri hv. þingmanna um að samþykkt þessarar tillögu sé á einhvern hátt lífsnauðsynleg til að ná lausn í þeim kjaradeilum sem standa yfir. Það liggur nú fyrir að enginn annar kannast við það. Aðilar vinnumarkaðarins kannast ekki við það að þeir hafi verið að þrýsta á að samþykkja tillöguna. Það liggur líka fyrir í umsögn frá ASÍ, stærstu samtökum launþega, um þetta mál að þar er hvatt til þess að málið fái að hafa sitt faglega ferli, þ.e. verkefnisstjórn fái að ljúka störfum sínum og að þingið sé ekki að koma inn í það ferli sem er bundið í lögum um rammaáætlun.

Það er líka áhugavert ef við veltum því fyrir okkur að hér er varpað fram rökum um einhvers konar raforkuskort. Það tengist því sem hv. þingmaður var að lesa upp eftir rithöfundinn Andra Snæ Magnason, að við erum að selja 80% raforkuframleiðslu í landinu til stóriðju. Við erum búin að virkja helming alls virkjanlegs vatnsafls og jarðvarma. Á sama tíma og hér er talað um að það sé nánast raforkuskortur í landinu og að virkja þurfi meira til að knýja áfram iðnað, þá gefa stjórnvöld yfirlýsingar um að leggja eigi orkuskattinn af. Það er því ekki bara verið að tala um að fórna meira af náttúrunni til að virkja meira fyrir þann iðnað, heldur er líka ætlunin að fella niður raforkuskatt til að tryggja það að arðurinn af þessari sameiginlegu auðlind renni ekki í vasa þjóðarinnar, heldur þeirra sem reka orkufyrirtækin.

Mig langar að spyrja hv. þm. út í þá stefnu og sýn hennar á þetta.