144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég tek eiginlega bara undir með Andra Snæ Magnasyni þegar hann sér þetta sem ákveðið form af geðveiki, þessa stefnu. Hún er svo rosalega ósjálfbær til framtíðar. Hún tekur ekki tillit til framtíðarkynslóða sem eiga að erfa landið. Hún er bara til þess að leysa skammtímavandamál. Það er rosalega mikið vandamál.

Ég var í hópi margra sem bentu á hvað mundi gerast þegar Kárahnjúkar yrðu virkjaðir, til dæmis fyrir Lagarfljót. Það er búið að eyðileggja Lagarfljót. Það er búið að eyðileggja þennan yndislega Lög, hann er orðinn eins og drulla, fyrir utan allt moldviðrið sem fer yfir Fljótsdal til dæmis, þar er gríðarlega mikið fok sem allir vissu, sem vildu kynna sér það, að mundi gerast.

Ef við gætum einhvern veginn snúið aðeins til baka af þessari vegferð, væri ekki æðislegt ef við gætum til dæmis veitt gróðurhúsabændum meiri afslátt á orkunni til að hægt væri að búa til meira grænmeti á Íslandi, þannig að við séum ekki að flytja inn og eyða gjaldeyri í að flytja inn grænmeti? Við erum enn þá með gjaldeyrishöft. Ég sé ekki bóla á stöðugleikaskatti hæstv. forsætisráðherra og hef ekki enn séð hann. Ég held að verið sé að halda okkur uppteknum hérna á þinginu í að ræða um rammann af því að ríkisstjórnina vantar tíma til að klára þau mál. Það er greinilega brjálað að gera í fjármálaráðuneytinu eða eitthvað slíkt.

En þessi stefna er ekki stefna sem ég gæti nokkurn tímann stutt, hvorki með hugviti né hjartaviti.