144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að það er miðnætti og eins og ég skil virðulegan forseta stendur til að flytja hér fleiri ræður. Hv. þm. Willum Þór Þórsson er næstur á mælendaskrá með sína fyrstu þingræðu um þetta stóra mál. Honum er sem sagt ætlað að tala hér eftir miðnætti. Er það svo, virðulegi forseti? Ég velti því fyrir mér hvernig forseti sér eiginlega fyrir sér virðingu þingsins í þessu samhengi. Er eðlilegt að við séum að ræða mál af þessum toga þannig að menn séu að flytja sínar fyrstu ræður á þessum tíma? Hér er stjórnarþingmaður og hann er einu sinni sem oftar eini stjórnarþingmaðurinn í salnum. Er eðlilegt að honum sé ætlað að flytja sína fyrstu ræðu undir þessum kringumstæðum? Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað stendur til að funda hér lengi? Það eru nefndafundir hér í bítið. Stendur til að halda bara (Forseti hringir.) þingfundinum hér áfram eitthvað fram á morgun? Eða hvert er eiginlega planið?