144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá að vita hversu lengi inn í nóttina þessi fundur á að standa. Mér fannst það ekki liggja í ákvörðun forseta fyrr í dag þegar greidd voru atkvæði um lengd þingfundar að það mundi verða næturfundur. Ég sá eiginlega frekar fyrir mér að þetta yrði kvöldfundur og mótmælti því að sjálfsögðu vegna þess að það eru mörg önnur mál sem ég mundi vilja vera að ræða nú frekar en það sem hér er á dagskrá.

Það er nokkuð brýnt að fá svör við því hversu lengi við eigum að halda áfram að ræða þetta mál inn í nóttina, ekki það að ég sé að kvarta yfir því að vera hérna, tíminn hefur nýst vel, að minnsta kosti hjá mér, við að lesa fjölmargar umsagnir sem borist hafa um þetta mál. Niðurstaða mín er sú að þetta mál er kolfallið. Það stendur ekki steinn yfir steini í því. Svo hafa komið nýjar upplýsingar fram í kvöld sem gera (Forseti hringir.) það að verkum að málflutningur okkar, sem gengur út á það að þetta mál (Forseti hringir.) sé ekki þingtækt og að engin ástæða sé til að hafa það á dagskrá, hefur styrkst frekar en nokkuð annað.