144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að skýra það út fyrir okkur á heiðarlegan hátt hvers vegna þingmenn stjórnarliðsins eru ekki hér. Það er vegna þess að þeir þola ekki hitann. Og ég verð að þakka fyrir það þegar menn koma svona heiðarlega fram varðandi ástæður þess að menn láta ekki sjá sig í salnum. Það er kannski ekkert skrýtið vegna þess að hér hefur hver staðreyndin á fætur annarri komið fram sem afhjúpar það að menn eru með vanreifað mál í síðari umræðu.

Virðulegi forseti. Mig langar líka til að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir skildi hann eftir. Þessi leikur hér að við segjum: Hvenær lýkur þingfundi? og forseti segir: Heldur áfram að sinni, er hlægilegur. Þetta er líka bara ferlega hallærislegt, sérstaklega í ljósi þess að það eru 18 manns á mælendaskrá. Það skal enginn segja mér það að menn haldi að það verði hægt með einhverjum klækjum að klára hér fund í nótt, (Forseti hringir.) að þetta rúlli í gegnum 18 manns. Auðvitað ekki.

Virðulegi forseti: Eigum við ekki að hætta þessum leikaraskap, hæstv. forseti segir okkur bara hvað við verðum hér lengi (Forseti hringir.) og svo höldum við áfram?