144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir heiðarleg svör. Ég hjó eftir því að hann sagði að reglurnar megi ekki verða yfirsterkari markmiðinu. En hvert er markmiðið, hv. þingmaður, í ljósi þess að markmið laga um rammaáætlun var að skapa einhvers konar ferli til að skapa sátt? Við sjáum það að með því að ganga fram hjá því ferli, þ.e. að ganga fram hjá núverandi verkefnisstjórn, þá erum við ekki að ná því markmiði að skapa sátt um hvar eigi að vernda og hvar eigi að nýta. Þess vegna segi ég, ef reglurnar mega ekki íþyngja markmiðinu, hvaða markmið er þá hv. þingmaður að vísa til? Ef við erum sammála um það, sem ég hef þá trú að við séum, að mikilvægt sé að við náum þessum málum í það ferli að við séum ekki að ákveða virkjunarframkvæmdir fyrst og fremst bara út frá pólitík en ekki út frá faglegu mati, þá skiptir máli einmitt að við séum trú því markmiði að ætla að reyna að skapa þennan sáttafarveg.