144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[01:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég kann mjög að meta í fari hv. þingmanns er að hann sýnir mikla kurteisi, þá tegund sem ég kalla stundum vitsmunalega kurteisi meðal annars. Mér þykir gott að heyra hv. þingmann velta mjög einlægt fyrir sér hvernig nákvæmlega sé hægt að færa þetta rammaáætlunarmál allt saman einhvern veginn áfram þannig að um það sé temmileg sátt, um ferlið í það minnsta, ég ber mikla virðingu fyrir því. Ég velti svolítið fyrir mér með hliðsjón af öllu því sem hefur komið fram hérna er ljóst að ekki er sátt um þessa tilteknu aðferð. Vandinn í raun og veru við aðferðina er í sjálfu sér sá að mínu mati að Alþingi hefur ótrúlega mikil völd með þingsályktunum. Alþingi gæti samkvæmt þessu ályktað að virkja Gullfoss. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að enginn vill virkja Gullfoss. Ég nefni það sérstaklega sem dæmi sem ég veit að allir eru sammála um til að undirstrika völdin sem felast í þingsályktunum.

Ef við ætlum inn á þá braut að fara að fjalla um einstaka virkjanir í þingsályktunum erum við komin aftur inn á pólitísku brautina sem við reyndum að fara af með rammaáætlun. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður geti deilt betur með okkur þeirri sýn sem hann hefur á því hvernig hægt sé að laga hið faglega ferli þannig að ekki verði þörf á þeim pólitíska hluta ferlisins sem við sjáum hér. Við hljótum öll að vera sammála um að við vildum helst að rammaáætlunin virki og að þingheimur beri virðingu fyrir henni. Þetta snýst ekki bara um það hvað er þingtækt, það er þingtækt að leggja það til að Gullfoss yrði virkjaður, enginn hér inni mundi nokkurn tímann láta sér detta það í huga, en það er þingtækt. Það er löglegt, það má, það er hægt. (Forseti hringir.)

Ég velti fyrir mér hvernig við förum aftur inn á brautina þar sem þetta er meira faglegt en pólitískt, vegna þess að hérna er meiri hlutinn náttúrlega (Forseti hringir.) yfirþyrmandi pólitískur, óhjákvæmilega.