144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[01:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir vangaveltur í síðara andsvari, við erum á svipuðum stað í þessu. Við þurfum að klára málið eins og það liggur fyrir. Ég tek á málinu eins og þeim þingmálum sem koma, þó með þeim fyrirvörum að hér þarf maður að lesa sig í gegnum helling af umsögnum, um 70 aðilar koma fyrir. Þetta er mál sem er að koma úr nefnd og liggur fyrir með breytingartillögu. Ég þarf að taka afstöðu til þess og lesa mig í gegnum það.

Í framhaldinu, hvort sem við lítum til síðasta kjörtímabils eða þess sem er núna og þess ágreinings sem uppi er um það hvort málið sé þingtækt eða ekki o.s.frv., við viljum ekki lenda í því aftur. Við viljum ekki eyða orku og tíma. Ég ber fulla virðingu, svo það sé sagt, fyrir rökfastri afstöðu þingmanna minni hlutans og því hvernig þeir berjast í þessu máli, svo (Forseti hringir.) lengi sem þeir koma hingað upp og færa rök fyrir því, það hjálpar okkur jafnframt í meiri hlutanum að komast áleiðis með málið eins og það liggur fyrir. (Forseti hringir.) Nú er ég kannski að tala fyrir sjálfan mig hér, eins og ég er að meta málið.