144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Menn tala um að ekki liggi fyrir hvernig við viljum ganga hönd í hönd. Við höfum verið með þá einföldu kröfu að tillaga hæstv. ríkisstjórnar, tillaga hæstvirtra umhverfisráðherra, verði á dagskrá og verði afgreidd. Hún snýst um Hvammsvirkjun. Það er það eina sem stjórnarandstaðan biður um. En hér berjast menn gegn sinni eigin tillögu til að koma einhverju öðru að. Menn skulda okkur skýringuna á því af hverju þeir þola ekki að bíða í tvo mánuði til að fá niðurstöðu verkefnisstjórnar til að geta tekið þau mál þá jafnóðum á dagskrá. (Gripið fram í.)

Hér logar samfélagið í verkföllum, allt er í upplausn, og þá kemur hæstv. forsætisráðherra og fer að reyna að meta, sem hann hefur sérstakan hæfileika til, hvort við séum að setja Íslandsmet eða heimsmet. Skiptir það einhverju máli? Það sem skiptir mestu máli hér er að koma þessu samfélagi áfram. Það brenna á okkur stór mál, bæði í verkfallsmálum, í menntamálum og öðru sem þarf að ræða hér, en það er val hæstv. ríkisstjórnar (Forseti hringir.) og stjórnarmeirihlutans að láta tímann fara í þetta og þá er það bara þannig.