144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru fleiri sem geta talið og þarf ekki að hringja í upplýsingaþjónustu þingsins til að fá yfirlit yfir þær ræður sem haldnar hafa verið hér. Það er einfaldlega þannig að margir í þessum sal sem hafa tekið þátt í þessum umræðum eiga langt í land með að ná 150 ræðum um fundarstjórn forseta hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, 130 hjá hæstv. forsætisráðherra og meira að segja 150 hjá hæstv. núverandi forseta sem fluttar voru hér á síðasta kjörtímabili. Og svona gæti ég haldið áfram. Hættum nú þessum leik, virðulegi forseti, og tölum um efni málsins. Það sem mér þykir alvarlegt er að hæstv. forsætisráðherra skuli koma hér upp þegar við blasir að 65 þúsund manns muni leggja niður störf innan tveggja vikna og það stefnir í fjölmennasta verkfall sögunnar, og við erum að kalla hér eftir umræðum um það, að þá skuli hann nýta tíma sinn í ræðustólnum til að ræða klósettferðir.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta er fyrir neðan allar hellur og hæstv. forsætisráðherra á að koma hingað upp og fara yfir það með okkur í dag hvernig hann ætlar að bregðast við þeirri stöðu sem fram undan er á vinnumarkaði.