144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa nokkrum áhyggjum af þeirri vanstillingu sem hefur sýnt sig hjá forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna í umræðum um fundarstjórn forseta. Þeir verða ósköp einfaldlega að axla ábyrgð á því með hvaða hætti þeir hafa lagt þetta mál fyrir þingið og þeirri staðreynd að það er ekki í samræmi við lagaákvæði samkvæmt álitum þeirra eigin ráðuneyta. Það er mergurinn málsins.

Við förum bara fram á það að farið sé að lögum í málinu, að tillagan verði dregin til baka. Við í Samfylkingunni erum tilbúin að styðja hina upphaflegu tillögu ráðherrans. Meiri er nú óbilgirni okkar ekki. Við erum líka til í að hjálpa ríkisstjórninni að greiða fyrir því að verkefnisstjórnin geti hraðað störfum sínum eins og kostur er, enda er full ástæða til að veita aukið fé í þessi mikilvægu verkefni.

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að halda áfram með þennan leikaraskap af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar. Á meðan athyglin er á þessari furðutillögu þá er hæstv. menntamálaráðherra á bólakafi að skemma framhaldsskólakerfið út um allt land í fullkomnum (Forseti hringir.) ágreiningi við heimamenn á öllum stöðum (Forseti hringir.) og síðan stöndum við frammi fyrir verkföllum. Það er ófært ástand að þinginu sé haldið uppteknu (Forseti hringir.) í leikaraskap á meðan menn fara fram með valdníðslu vítt og breitt um landið.