144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem í sömu erindagjörðum og áðan til að lýsa yfir áhyggjum af dagskránni, ekki bara í ljósi þess hversu málið sem á henni er er vont, heldur líka vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru á íslenskum vinnumarkaði. Okkur hér inni ber að taka það alvarlega þegar fram undan eru fjölmennustu verkföll Íslandssögunnar. Það er ekkert grín, herra forseti. Það hefur mjög alvarlegar afleiðingar, ekki bara efnahagslega heldur líka ýmsar aðrar, eins og þegar við tölum um heilbrigðiskerfið sem búið er að vera hálflamað í sjö vikur. Það mun bara versna ef ekki næst að leysa málin gagnvart hjúkrunarfræðingum fyrir 27. maí næstkomandi.

Herra forseti. Það eru sex dagar þangað til hjúkrunarfræðingar ætla að leggja niður störf. Ég ætla því að spyrja hæstv. forseta: Hyggst hann óska eftir því við hæstv. forsætisráðherra að hann flytji þinginu skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði?