144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum einmitt að ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að við erum ósátt við dagskrána. Við teljum að það séu önnur og brýnni verkefni sem þurfi að leysa til að losa um stífluna sem er í þinginu í stað þess að setja rammann á dagskrá dag eftir dag.

Eitt af því sem maður átti óskir um og vonir var að við gætum lært á þessu þingi að búa til stefnuáætlanir til lengri tíma sem færu fyrst í umfjöllun í þinginu og síðan yrði unnið eftir þeim áætlunum af framkvæmdarvaldinu, þ.e. af hæstv. ríkisstjórn. Þannig varð ramminn til.

Hæstv. fjármálaráðherra er með ríkisfjármálaáætlun að reyna að setja fram stefnumótun til þriggja eða fjögurra ára, til að hægt sé að vitna í hana: Bíddu, þetta er samkvæmt áætluninni. Eru menn að breyta henni? Af hverju? Og þannig mætti áfram telja. Menn geta þá rætt hlutina út frá einhverjum grunni. Hugmyndin var sú sama með hvítbók menntamálaráðherra en sú bók hefur aldrei komið til umræðu. Það er enginn sem veit hvað hæstv. menntamálaráðherra er að gera út um allt land. Það loga eldar út um allt og við höfum ekki (Forseti hringir.) hugmynd um hvað er að gerast og höfum engin tækifæri til að ræða það.

Það eru þessi vinnubrögð sem þurfa að breytast, hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. forseta að taka þátt í því að reyna að koma okkur (Forseti hringir.) inn á það form að við höfum langtímaáætlanir.